Þú ert að sækja Markaða íslenska málheild


Til að geta sótt skrána MIM.zip þarftu að samþykkja eftirfarandi leyfi með því að skrá tölvupóstfang:

MÍM leyfi

Vinsamlegast lesið textann vandlega. Skráið síðan tölvupóstfang og staðfestið um leið þá skilmála sem hér eru settir fram. Þegar staðfesting hefur borist fær væntanlegur leyfishafi sendan tölvupóst í það tölvupóstfang sem hann hefur skráð. Með því að smella á tengil í tölvupóstinum fær hann leyfi til þess að sækja gögn Markaðrar íslenskrar málheildar og samþykkir um leið að hlíta skilmálum sem settir eru fram í leyfinu.

___________________________________________________________________________

Notkunarleyfi

fyrir Markaða íslenska málheild

________________________________________________________________________

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (hér eftir oft nefnd rekstraraðili) veitir hér með leyfishafa leyfi til þess að nota Markaða íslenska málheild (MIM) í samræmi við eftirfarandi skilmála.

0 Skilgreiningar

 1. Texti er samfellt mál í tölvutæku formi sem er valið til notkunar í rannsóknum og við þróun máltæknibúnaðar.

 2. MIM er safn valinna texta þegar þeim hefur verið komið í samræmt tölvutækt form og þeir greindir á málfræðilegan hátt.

 3. Niðurstöður leyfishafa er afrakstur vinnu sem leyfishafi hefur unnið á textum í MIM.

1 Inngangur

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er umsjónaraðili MIM.

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum hefur samið við rétthafa um að textar úr verkum þeirra séu hluti af MIM. Rétthafar textanna hafa með sérstakri yfirlýsingu heimilað rekstraraðila að veita leyfishafa leyfi til þess að nota textana eins og lýst er hér á eftir.

Leyfishafi er notandi textanna eins og lýst er í samningi þessum. Á vegum leyfishafa getur starfað hópur rannsóknarmanna við háskóla eða í fyrirtæki.

2 Skilmálar

 1. Rekstraraðili veitir leyfishafa óframseljanlegt leyfi til þess að nota MIM í málfræðilegum rannsóknum, í rannsóknum í máltækni og við þróun máltæknibúnaðar. Leyfi þetta felur ekki í sér einkarétt til notkunar málheildarinnar.

 2. Aðgangur leyfishafa að MIM samkvæmt notkunarleyfi þessu takmarkast við rannsóknarhóp leyfishafa. Með rannsóknarhópi leyfishafa er átt við starfsmenn leyfishafa, verktaka eða aðra samstarfsaðila sem leyfishafi hefur veitt heimild til þess að vinna að rannsóknum, sbr. 2. grein, lið a), með aðstoð MIM.

 3. MIM má setja upp á starfsstöð eða starfsstöðvum rannsóknarhópsins. Með starfsstöð er átt við útstöð vélbúnaðar eða lokað netkerfi sem félagar í rannsóknarhópnum nota venjulega við vinnu sína. Þar getur bæði verið um að ræða búnað á vinnustað og heimili starfsmanna og leyfið er ekki takmarkað við tiltekinn vélbúnað eða byggingu.

 4. Taka má öryggisafrit af MIM og einnig má búa til afrit fyrir félaga í rannsóknarhópnum. Leyfishafi skal sjá til þess að öllum afritum af málheildinni, hvort sem um ræðir afrit í heild eða að hluta, fylgi áskilnaður um höfundarrétt sbr. 5. grein, lið d) í notkunarleyfi þessu.

 5. Ekki má gefa út, birta, miðla til almennings eða veita þriðja aðila á annan hátt aðgang að MIM í heild eða að hluta. Ekki má heldur afrita MIM um fram það sem greint er í c) og d) lið þessarar greinar. Það er á ábyrgð leyfishafa að sjá til þess að starfsmenn hans skilji og fari eftir þessum skilmálum og hafa umsjón með notkun þeirra á MIM.

 6. Hvorki leyfishafi né rannsóknarhópur hans mega leigja út eða selja MIM, taka á annan hátt gjald fyrir afnot af málheildinni eða framselja notkunarleyfið.

 7. Leyfishafi getur notað niðurstöður sínar að vild. Leyfishafa er þó ekki heimilt að gefa út á prenti eða í rafrænu formi, birta, miðla til almennings eða hagnýta á annan hátt í atvinnu- eða hagnaðarskyni texta úr MIM umfram það sem heimilað er í 14. gr. höfundalaga nr. 73/1972 og skal þá ætíð geta heimildar.

 8. Við útgáfu eða annars konar birtingu eða miðlun til almennings sem heimil er á grundvelli g) liðar þessarar greinar skal þess gætt að virtur sé í hvívetna sæmdarréttur höfundar texta, sbr. 4. gr. höfundalaga nr. 73/1972, og að ekki komi fram persónugreinanlegar upplýsingar um þriðja aðila í því sem birt er.

 9. Þegar birtar eru niðurstöður rannsókna sem gerðar eru með aðstoð MIM skal hennar getið sem heimildar 1.

  Hið sama gildir við útgáfu máltæknibúnaðar þar sem
  MIM hefur verið nýtt.

3 Greiðsla

Ekkert gjald er tekið fyrir afnot af MIM.

4 Gildistími leyfis

Haldi leyfishafi skilmála þessa leyfis er gildistími leyfisins ótakmarkaður. Leyfinu má þó segja upp með heimild í 8. gr ef leyfishafi gengur gegn ákvæðum samnings þessa.

5 Skyldur leyfishafa

Leyfishafi og allir í rannsóknarhópi hans skulu ætíð viðhafa fyllstu varúðarráðstafanir til þess að fullnægja ákvæðum samnings þessa og skulu m.a.:

 1. Halda skrá um öll afrit af MIM sem eru búin til og um þá einstaklinga í rannsóknarhópi leyfishafa sem hafa aðgang að málheildinni hverju sinni. Einnig skal skráð hvar slík afrit eru geymd. Jafnframt skal haldin skrá um verkefni á vegum leyfishafa þar sem MIM er notuð. Leyfishafi lætur rekstraraðila í té þessar skrár án tafar sé þess óskað.

 2. Fylgjast reglulega með notkun MIM þ.á m. að uppfæra eftir þörfum skrár samkvæmt a) lið.

 3. Viðhafa viðeigandi öryggisráðstafanir til þess að koma í veg fyrir að óviðkomandi geti fengið aðgang að skrám málheildarinnar. Aðgangur leyfishafa og einstaklinga í rannsóknarhópi hans að MIM skal aðeins heimill með notkun aðgangsorðs sem hann úthlutar viðkomandi einstaklingi og óheimilt er að láta óviðkomandi í té.

 4. Gera aðrar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að vernda höfundarrétt og önnur réttindi á sviði hugverka- og auðkennaréttar í eigu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og rétthafa texta í MIM.

 5. Ef grunur vaknar hjá leyfishafa um að starfsmenn hans, aðilar í rannsóknarhópi hans eða samstarfsaðilar hafi brotið gegn skilmálum þessum eða misfarið með aðgang að MIM skal hann þegar í stað tilkynna það til rekstraraðila.

Leyfishafi skal sjá til þess, m.a. með samningum við aðila í rannsóknarhópi sínum, hvort sem um ræðir starfsmenn, verktaka eða aðra samstarfsaðila, að þeir framfylgi þeim öryggisráð­stöfunum sem tilgreindir eru í c) lið og öðrum ráðstöfunum er hann kann að mæla fyrir um og að þegar vinnu við rannsóknar­verk­efni lýkur sé eytt öllum afritum þeirra af MIM.

Leyfishafi skal sjá til þess að aðrir en þeir sem vinna við verkefni rannsóknarhópsins á hverjum tíma hafi ekki aðgang að málheildinni.

6 Takmörkun ábyrgðar

 1. Rekstraraðili ábyrgist ekki að MIM henti fyrir tiltekna notkun eða sé til nota við tilteknar aðstæður jafnvel þótt honum hafi áður verið kynntar áætlanir leyfishafa.

 2. Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á tæknilegum eiginleikum eða takmörkunum MIM.

 3. Rekstraraðili ábyrgist ekki að hugbúnaður sem kann að vera dreift með MIM starfi án truflana og án þess að villur komi fyrir.

 4. Rekstraraðili mun ekki undir neinum kringumstæðum bera ábyrgð gagnvart leyfishafa á fjárhagslegu tapi, tapi á viðskiptavild eða öðru óbeinu tjóni jafnvel þótt það hafi verið fyrirsjáanlegt.

 5. Rekstraraðili ber ekki ábyrgð á skemmdum sem kunna að verða á eignum leyfishafa hvort sem þær kynnu að vera afleiðing af vanrækslu rekstraraðila, starfsmanna hans, umboðsmanna eða undirverktaka, eða af öðrum ástæðum.

7 Réttur rétthafa

Öll réttindi á sviði hugverka- og auðkennaréttar, m.a. höfundarréttur, sem tengjast MIM, haldast á hendi rétthafa textanna og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.

8 Uppsagnarákvæði

 1. Rekstraraðili getur fellt leyfið úr gildi með skriflegri tilkynningu án sérstakrar viðvörunar ef leyfishafi gengur gegn ákvæðum samnings þessa.

 2. Leyfið fellur sjálfkrafa úr gildi ef bú leyfishafa er tekið til gjaldþrotaskipta.

9 Ágreiningsmál

Verði ágreiningur um samning þennan og náist ekki samkomulag milli aðila skulu slík mál rekin fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hafa samband

Ef spurningar vakna vinsamlegast hafið samband: malfong@malfong.is
1 Vitna í: Sigrún Helgadóttir, Ásta Svavarsdóttir, Eiríkur Rögnvaldsson, Kristín Bjarnadóttir og Hrafn Loftsson. 2012. The Tagged Icelandic Corpus (MÍM). Proceedings of the Workshop on Language Technology for Normalisation of Less-Resourced Languages -SaLTMiL 8 – AfLaT2012, s. 67-72. Istanbúl, Tyrklandi. Aðgengilegt til leitar á malheildir.arnastofnun.is/mim.
Tölvupóstfang: